top of page
Search

Ó elsku besti...

Þó það virðist stundum bara vera handfylli af hlutum sem láta sálina í mér syngja, þá eru þeir samt mun fleiri en gætu virst við fyrstu sýn. Til dæmis geta ótal hlutir glatt mig í einum göngutúr. Ég get sennilega seint fullþakkað fyrir snjóflóðavarnirnar sem voru gerðar hérna fyrir ofan byggðina á eyrinni, því samhliða þeim kom frábært net göngustíga. Þegar best lætur nýti ég mér þá daglega. Mér finnst merkilegt hvað maður mætir sjaldan öðru fólki þar, en ég sé þegar snjóföl er yfir að margir eru að nýta sér stígana, þó þeir verði ekki á vegi mínum. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að geta hreinlega gengið þetta – að vera með líkama sem virkar. Ég meiddist aðeins á hné fyrir einum og hálfum mánuði er ég var hlaupin niður af hressum tíkum á fljúgandi siglingu. Ætli borgi sig ekki að taka fram að þessar tíkur voru ferfættar. Jæja, tæpum mánuði seinna drattaðist ég til læknis því ég var ekki enn orðin góð í hnénu og kom þá í ljós að við hnjaskið hefðu bæði losnað liðband og komið rifa í liðþófa. Það dró umtalsvert úr hreyfingu hjá mér, en smátt og smátt hef ég verið að lengja göngutúrana aftur og vona að hnéð heili sig sjálft á endanum – án inngripa. Ég hef verið ótrúlega heppin í gegnum tíðina að eiga þennan sterka líkama. Vá hvað hann hefur auðveldað mér lífið! Ég tala stundum um að vera með vitið í fótunum. Það er þegar ég er búin að vera að humma eitthvað fram af mér fram á síðustu stundu og þarf að láta hlutina gerast hratt og það er líka þegar ég hef minni aðgang að skýrri hugsun og þarf að fara rosa margar ferðir til að gera einhvern hlut sem væri hægt að gera á mun einfaldari máta á heiðríkum degi í hausnum á mér.


Já ég er ótrúlega þakklát fyrir þennan líkama og í gegnum 5 Rytma iðkun mína veit ég líka að það er hægt að heila sálina á undraverðan hátt með líkamlegri iðkun. Fyrir þá sem ekki þekkja söguna af því hvernig ég kynntist þessari merkilegu dansiðkun þá var það þannig að ég byrjaði að dansa þegar ég var að vinna á skemmtiferðaskipinu Silver Cloud þegar ég var rúmlega tvítug. Þá voru liðin u.þ.b. tvö ár frá því ég hætti að drekka og áður en ég fór á skipið var ég búin að vera dugleg á 12 spora fundum og að nýta mér annars konar sáluhjálp. Á skipinu var auðvitað ekkert slíkt í boði og ofan í það að hætta að drekka, hafði ég líka hætt að reykja og tekið til óspilltra málanna í blússandi matarfíkn. Staðurinn sem ég var kominn á í sjálfsheilun minni var þannig að ég reyndi hvað ég gat til að vera með sjálfri mér – en gat það samt ekki, svo sjálfskaðandi fíknihegðun var einn besti kosturinn í stöðunni. Þegar þarna var komið við sögu hafði ég borðað á mig 25 kíló á rúmu ári. Ég gat ekki hætt að éta. Þó það væri sennilega ekkert sem léti mér líða eins hörmulega illa og að belgja mig út af einhverju þangað til að ég sá stjörnur og gat varla andað. Enda varð fljótt uppáhaldssetningin mín við Stellu vinkonu mína: I can feel the sugar pumping in my vains! Og það var akkúrat þannig sem ég upplifði þetta, ég varð einhvernvegin bara haus og æðakerfi í ofátsköstunum. Það endaði með því að hin dagfarsprúða Stella mín missti gjörsamlega stjórn á sér og öskraði á mig að ég væri í alvörunni að stúta mér á áti og þessu yrði að linna. Það gerði það samt ekki þar og þá – og Stella yfirgaf mig ekki þrátt fyrir það.


Vinnan á Silver Cloud var ekki sama og að vera á skemmtiferðaskipi. Við unnum langar vaktir sjö daga vikunnar og það mátti til dæmis ekki vera veikur – því það var enginn til að leysa mann af. Þetta er samt heilt á litið skemmtileg minning og gaf mér kost á því að sjá heilmikið af heiminum þó það hafi verið í formi augnabliksmynda. Ég læt mig enn dreyma um að fara til staða sem vöktu hjá mér djúpstæðar tilfinningar eins og Costa Ríka. Frumurnar í mér munu aldrei gleyma því hvernig það var að vera umlukin regnskóginum; hljóðin, lyktin, andrúmsloftið, litirnir og dýralífið. Ég var snortin inn að sálarmerg. Annar staður sem gagntók mig með fegurð sinni var Kyrrahafseyjan Moorea og má sjá mig á meðfylgjandi mynd þar.



Það sem ég var að reyna að koma að var að stundum fórum við á Crew barinn og dönsuðum af okkur rassgatið. Það var alveg geggjað! Mér leið vel í marga daga á eftir. Upplifun mín var algjörlega á þann hátt að mér fannst ég hafa farið út með ruslið úr sjálfri mér. Þetta gerði ég svo reglulega þá þrettán mánuði sem ég var á skipinu og ásamt Stellu og átinu varð það líflína mín. Ég fann að ég hafði fundið svar við einhverjum spurningum sem ég vissi ekki að ég hafði. Þegar heim var komið hafði ég samband við Guðrúnu Bergmann sem hafði verið mér mikill haukur í horni áður en ég fór á skipið. Ég vissi að enginn sem ég þekkti var eins fróður um andans mál og Guðrún. Ég vissi þarna að dansinn var ekki að þjóna mér eingöngu líkamlega, heldur upplifði ég mjög sterkt andleg áhrif þess að dansa. Ég spurði Guðrúnu hvort það gæti ekki verið að dans væri notaður sem andleg iðkun? Það gat tæplega verið að ég væri að finna upp hjólið í þessum efnum. Guðrún hélt það nú og sagðist ætla að senda mér bók sem héti Maps to Ecstacy eftir bandaríska konu að nafni Gabrielle Roth. Ég gæti lesið allt um þetta þar.


Þetta var auðvitað á flakkárunum í lífi mínu þar sem ég stoppaði yfirleitt ekki lengi við á sama stað, en ég hafði fengið góða vinnu sem ráðgjafi í Götusmiðjunni, svo vinir mínir héldu að loksins væri ég nú hætt að flakka svona mikið. Ég las bókina og varð fyrir svo miklum áhrifum að ég ákvað að hætta í vinnunni til að fara til Bandaríkjanna að hitta Gabrielle Roth og láta hana kenna mér þennan dans. Síðan ætlaði ég að koma heim og frelsa land og þjóð úr ánauð líkamlegra hafta sinna með dansi. Þetta var í árdaga internetsins svo ég áttaði mig ekki á að ég hefði geta farið mun styttra yfir til að komast í 5 Rytma dans, hjá einhverjum þeirra sem höfðu hlotið þjálfun sem 5R kennarar. Ég er samt voða glöð yfir þessari einurð minni og skorti á upplýsingum – því það leiddi mig að einum frábærasta kennara sem hefur orðið á vegi mínum á lífsleiðinni, téðri Gabrielle. Í hjartanu blessa ég minningu hennar og vildi óska að jarðneskrar visku hennar nyti enn við.





Ég ætla ekki að spara stóru orðin – en þarna upphófst endurfæðing mín. Ferðalagið frá því að vera bara haus yfir í að vera líkami með haus var sérlega sársaukafullt, en á sama tíma eitthvað það gjöfulasta sem hent mig hefur...eða til að gefa sjálfri mér smá kredit...sem ég hef leitt sjálfa mig í. Næstu tvö árin dansaði ég mörg hundruð klukkutíma af 5Rytma dansi á öllum stigum, með fjölmörgum kennurum, en þó mest með Gabrielle. Það er engin lygi að ég varð ný fyrir vikið. Dansinn, í gegnum það að nota minn eigin líkama á vegferð minni til heilunar, losaði mig undan eitruðu og mannskemmandi sjálfshatri.


Þó ég sé ekki alltaf jibbíkóla og bingó yfir líkamanum mínum er ég endalaust þakklát fyrir hann. Hann hefur fært mér allt litróf þeirra tilfinninga sem ein manneskja getur átt. Hann hefur aukið svo afskaplega færni mína í að halda á því sem er að gerast innra með mér og hann er frábært stjórntæki til úrvinnslu á því sem er í gangi hverju sinni.

Töfrar dagsins er líkaminn – öll hans geta – öll hans viska – öll hans þjáning – og öll hans gleði. Takk!

 
 
 

コメント


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page