Lokauppgjör Töframánaðarins
- Annska Ólafsdóttir
- Dec 7, 2019
- 6 min read
Hvað er betra á myrkum laugardagsmorgni en að setjast niður við kertaljós og skrifa? Húsið er hljótt og hér bærast lífin í hinum alls-heilandi svefni. Ef mér skjátlast ekki mun ég heyra tipl eða tramp innan fárra mínútna, enda klukkan að verða 10. Svona notalegir morgnar eru svo mikill lúxus. Svo þegar léttasta tiplið mætir niður þá veit ég að yfir mig munu rigna ástarjátningar. Hugi Hrafn elskar að sofa út og hann vaknar einstaklega glaður á laugardagsmorgnum og syngur í eyrun mín með björtu röddinni sinni hversu mikið hann elskar mig. Já ég er lukkunnar pamfíll. Ég hef þó ekkert endilega verið mikið í að upplifa það síðustu daga, eða jú, gert mér ljósa grein fyrir láni mínu og síðan fengið sektarkennd og skammað mig fyrir hvað ég fer illa með það. Kúnstin að lifa vel krakkar mínir. Kúnstin að lifa vel.
Það er að verða komin vika síðan ég hætti skyndilega að skrifa. Það atvikaðist þannig að á mánudaginn hafði ég ekki tíma til að skrifa, eða gaf mér ekki tímann sem hefði eflaust með einhverju móti mátt kreista fram einhversstaðar. Ég gerði reyndar tilraun til að setjast niður, en það var svo þungt á andanum að ég hefði nú sennilega aldrei náð að kreista fram orðin innan þess tímaramma sem ég hafði. Það er svo merkilegt að þegar ég hafði gefið mér slakann til að sleppa þessu einn dag, þá var ótrúlega lítið mál að sleppa því þann næsta. Það kroppaði þó aðeins í mig að síðasta sem ég hafði sagt hafði verið að ég ætlaði að skrifa tvö blogg í viðbót og myndi skrifa til 3. desember. Eftir að hann var liðinn var ekkert mál að sleppa þessu. Yfirlýstur orðafjöldi minn var 30.000 orð og hefði ég í raun skrifað 30 daga hefði ég farið yfir það, en orðafjöldinn var á endanum um 29.000. Þar sem þetta er lokaskýrslan og ég stjórinn, þá get ég ákveðið að hún teljist með og þá er ég komin með þrjátíu þúsund orð.

Þetta var alveg frábær tilraun. Ég er innilega ánægð með að hafa gert þetta. Þessi tilraun mín kenndi mér allskonar. Hún kenndi mér að sjálfsögðu mest um sjálfa mig, en hún kenndi mér líka praktíska hluti eins og að setja upp heimasíðu og svolítið um markaðssetningu. Að setja upp síðuna var í raun einfalt mál, svo magnað hvað tæknin hefur fært okkur á skömmum tíma. Ég man þegar bloggið var í algleymingi fyrir kannski 15 árum síðan, þá þurfti maður að vera aðeins að sér í html og slíku. Núna er engu svoleiðis fyrir að fara. Þetta er auðvitað smá handavinna og það þarf að passa upp á að allt sé á réttum stillingum og svona. Svo er það að kaupa lén og kaupa pósthólf og svona ef maður vill að allt fúnkeri sem best. Þessir hlutir eru ekki eins kostnaðarsamir og þeir áður voru ef ég miða við þarna fyrir 15 árum og reiknast mér til ef ég deili greiðslunum niður á mánuði þá sé þetta um 1500 krónur hvern mánuð. Þegar heimurinn er galopinn, þá getur maður til dæmis bara keypt þessa hluti í útlöndum sjálfur fyrir brot af því verði sem það kostaði að gera svona hér heima áður fyrr. Ég valdi að gera þetta allt í gegnum Wix kerfið og það sem réði mestu þar um var hið sjónræna, mér fannst þeir einfaldlega bjóða upp á fallegustu útlitin ásamt einfaldri drag & drop stýringu af minni hálfu, sem er mjög gott fyrir þá sem hafa ekki mikinn forritunaráhuga.
Hvað markaðssetningarþáttinn varðar, þá hef ég aldrei haft neinn sérstakan áhuga á slíku. Það er samt ekki samasem merki á milli þess og vankunnáttu. Ég skil alveg hvernig markaðssetning virkar og ég er ágætlega að mér í henni. Þegar kemur að því að ota sínum tota vill hnífurinn standa í kúnni. Það var oft svolítið átak að setja færslurnar inn á fésbókina mína. Ég upplifði oft að ég væri að trana mér fram, sem er auðvitað í vissum skilningi satt og rétt og upplifði að þetta væri vegur minn til glötunar í gegnum svo gegndarlaust sjálfshól. Stundum hreinlega sleppti ég því að setja færslurnar inn og það var alveg ljóst á smellunum sem þær fengu að ef ég vildi raun að fólk læsi það sem ég skrifaði þá þurfti ég þeirrar markaðssetningar með að pósta tilkynningum um það sjálf.
Ég fékk nokkra trygga lesendur og tæplega 40 manns í áskrift á þessum mánuði. Ég reyndi ekkert að koma Töfradagbókinni neitt víðar en í nærumhverfi mitt. Ég veit satt að segja ekkert hvort hún eigi eitthvað erindi lengra, en ég reyni samt að setja upp fyrir mér hvort sá texti sem ég skrifa yfirleitt eigi upp á pallborðið hjá víðari hópi. Ég er þakklát fyrir hvatninguna sem ég hef fengið, ég er þakklát fyrir öll fallegu orðin í minn garð og já sérstaklega þetta með hvatninguna, að vita að það er fólk sem nýtur þess að lesa það sem ég skrifa. Það er gjöf.

Ég hef verið mjög persónuleg í Töfradagbókinni og einstaka sinnum þannig að mér finnst alveg nóg um, en oftast finnst mér ekkert mál að skrifa og tala um eigin hagi. Það er misauðvelt eftir því hvaða mál brennur á mér, en eftir áralanga djúpköfun í mitt dýpsta myrkur og mitt bjartasta ljós, þá verður þetta allt saman einhvernvegin minna dramatískt. Líka eftir að ég fékk þann gulllykil sem felst í að losa mig undan oki eitraðrar skammar, þá varð svo miklu auðveldara að viðra brestina og heimila mennskuna. Það er greinilegur munur á lestri eftir því hvert umfjöllunarefnið er og voru bloggin um Sölva bróður, Úlf og mömmu þau mest lesnu – þau persónulegustu.
Mig hefur oft skort sjálfsaga eins og má sjá visst vitni um hvernig ég endaði í miðju lofti. Ég hafði samt sjálfsagann til að halda út að skrifa á hverjum degi í nóvember eins og ég lagði upp með í byrjun og það var misauðvelt. Stundum settist ég niður og var hreinlega að drepast yfir auðu blaðsíðunni sem mætti mér, en svo bara byrjaði ég að skrifa og næstum án undantekninga komst ég í flæðisástand í skrifunum. Stundum var ég alveg viss um hvað ég ætlaði að skrifa um og skrifaði það út, stundum var ég viss um hvað ég ætlaði að skrifa um og þegar ég byrjaði að skrifa tók textinn af mér völdin og fór í allt aðra átt en ég hafði hugsað mér, stundum vissi ég ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um, en þegar ég fór að skrifa opinberaði það sig sjálft úr undirdjúpunum – og í gegnum iðkunina. Stundum tók þetta tíma, ég tímamældi samt aldrei. Það hefði kannski verið fínt að gera það bara til að sjá hvað ég var að verja miklum tíma í þetta á hverjum degi. Yfirleitt var þetta í heildina 1,5-2 klukkustundir á dag sem fóru í að skrifa, velja myndir og pósta. Þetta var samt oft brotakennt með allskonar útúrdúrum og pásum. Fyrst las ég yfir textann sem ég skrifaði, en svo gerði ég það alltof sjaldan. Ég þarf vissa fjarlægð við það sem ég skrifa áður en editering getur átt sér stað og þegar ég var með þá kröfu á sjálfa mig að skrifa og birta samdægurs þá fór það. Ég hefði samt alveg getað vandað þetta betur. Mér er meinilla við villur í texta og klaufalega framsetningu og vil helst slípa slíkt til áður en textinn fer fyrir almannasjónir, en svo er líka ágætis æfing að taka sjálfa sig ekki of hátíðlega og leyfa einhverjum fjólum að fljóta. Skítt og laggó! Mér finnst frábært til þess að vita að ég geti í raun búist við því af sjálfri mér að skrifa 30.000 orð á mánuði, þó ég viti að það sé aðeins öðruvísi að skrifa bók en blogg.
Ég verð að segja að það er eitt sem var yndislegt við að gefa töfrum hversdagsins meðvitaðan gaum í heilan mánuð. Ég beindi sjónum mínum markvisst að því fallega, undraverða og mjúka í veröldinni. Það gerði mér bara gott. Þó mér leiðist stundum að viðurkenna það, þar sem það hefur verið uppskrúfað á kostnað raunverulegrar sjálfsþekkingar, þá skiptir viðhorf máli. Viðhorf skiptir máli. Það er bara þannig. Ég get alveg verið í sjálfstýringu í dimmustu hugskotum mínum og að sleppa slíku lausu er svolítið eins og að sleppa ísbirni lausum inn á leikskóla. Þá kemur rándýrið sem getur eðli sínu samkvæmt tæplega annað en rústað og drepur það sem er fallegast og dýrmætast í veröldinni. Ég er samt engan vegin fullnuma og sé ekki fyrir mér að það sé eitthvað lokatakmark í þessum efnum. Ég er breysk og mannleg og yndislega ófullkomin. Ég vil samt halda áfram að æfa þetta, því það veitir mér gleði og það litar líka út í hornin á klessuverkið sem lífið er.

Töfrar dagsins eru fólgnir í að klára. Það má gera það með reisn og það má gera það með skottið á milli lappanna. Það má líka gera það með hina yfirlýstu mennsku að vopni, ófullkomlega en samt á endanum vel því það var gert.
30.000 orða múrinn er rofinn og crossantið er tilbúið í ofninum. Það er orðið bjart af degi og allir komnir á ról og ég búin að skrifa með pásum í 2,5 tíma. Nú er mál að linni og tími til kominn að standa upp úr rauða stólnum og fara í föt. Takk fyrir allt mínir kæru vinir. Mest af öllu – takk fyrir hvatninguna, ég fóstra hana í hjartanu. Ég er ekki hætt að skrifa.
Comments