Töfrastundir með tvisti
- Annska Ólafsdóttir
- Nov 16, 2019
- 4 min read
Ísafjörður skartar sínu fegursta í dag. Hrímhvít jörðin lýsir upp lygnan daginn og allt er stillt, ef frá er talið mannfólkið sem kann ekki alltaf að vera stillt. Allavega ekki alltaf þegar einhver annar gerir á það kröfu um það. Það er laugardagur, sem gefur mörgum hinna vinnandi og skólabörnum meiri slaka til að upplifa lífið á eigin forsendum. Hér sváfum við til hálf tíu (nema Úlfur auðvitað sem þurfti að vakna í vinnu snemma). Fallega veðrið kallaði á mig inn um gluggann og ekkert annað í boði eiginlega að dratta sjálfri mér, börnum og ferfætlingi út. Það endaði í þriggja klukkustunda dásamlegri útiveru. Þegar ég segi dásamlegri þýðir það ekki að allar stundir þessarar útiveru hafi allir hluteigandi verið yfirfullir af kærleika hver til annars og gjörsamlega gagnteknir af fegurð heimsins, hvað þá í ástandi djúpstæðs þakklætis fyrir að eiga kost á þessu og fá að upplifa þetta allt saman. Nei. Á endanum var það þannig að á einhverjum tímapunkti var pirringur, á einhverjum tímapunkti var gleði, á einhverjum tímapunkti var undur, á einhverjum var sjálfstjórn og á öðrum ekki.

Það er svo skemmtilegt að hlutirnir þurfa ekki að vera fullkomnir til að vera frábærir. Þessi göngutúr hófst í forstofunni á Hlíðarveginum, þar sem eldri sonurinn var mjög til í að fara út að labba, sá yngri var hins vegar andsettur og veinaði: Nei! Ég er ekki dólgur! eftir að við höfðum reynt að fá hann til liðs við okkur í korter eða svo. Svo áður en lagt var af stað hafði ég eiginlega tæmt út af þolinmæðiskútnum. Það er þó þannig úti í guðsgrænni (eða öllu heldur guðsgrárri í dag) náttúrunni að maður er sífellt að finna hraðhleðslustöðvar fyrir sjálfan sig.

Hugmyndin um fullkomnun hefur stundum staðið mér fyrir þrifum í því að njóta. Ég sé okkur fyrir mér eins og Maríu með krakkana sjö í Sound of Music hlaupdansandi um guðdómlegt Alpaumhverfi, þar sem allir eru stilltir, allir eru glaðir, auk þess sem allir dansa eins og Fred Astaire og syngja eins og englar. Það er alveg sama hvað ég hef gert með mínum börnum – og þó eru þau tvö en ekki sjö! Þau haga sér ekki svona vel og það eru sjaldnast allir glaðir í gegnum heila svona stund sem ég hef ákveðið að eigi að vera æðisleg. Ég man eftir einum jólum þegar Fróði var örugglega þriggja ára. Hann hafði verið einstaklega rólegur og góður yfir daginn, en þegar klukkan sló inn jólin klukkan sex á aðfangadag var eins og smellurnar sem héldu hausnum á honum á sínum stað hefðu losnað og hann breyttist í afstyrmið úr poltergeist. Það naut þess enginn að borða fína jólamatinn og tengdaforeldrar mínir þráðu svo heitt að komast frá okkur að tengdamamma fór í amerískan ruðningsbolta með jólagjafirnar, það fór ekki betur en svo að hún sjálf háttvísidrottningin af Ísafirði, skúrraði sér undir jólatréð af slíkum ofsa að það datt um koll og endaði ofan á henni með tilheyrandi látum. Þetta er sjúklega fyndið í minningunni og þegar ég sé myndir af Fróða frá þessum jólum minnir hann meira á alka á tuttugasta glasi en litla ljósálfinn hennar mömmu sín. Kannski voru þetta ekki einu sinni sömu jólin. Kannski eru jólin akkúrat tími þar sem við sjáum fyrir okkur að allir eigi að vera í formi sem þeir passa alls ekki inn í í raunveruleikanum og allir alltaf glaðir. Kannski gerist það svo hver jól að einhver fer út af sporinu í viðleitni sinni til fullkomnunar.

Utanlandsferðir og frí yfirleitt hafa líka yfir sér svona helgimynd – svona áður en maður tekur á því. Í rauninni fær maður á hverjum degi og stundum á hverjum klukkutíma allt litróf mannlegrar tilvistar beint í æð. Stundum verða brestirnir algjörlega ofan á. Annað hvort eru drengirnir þá grenjandi eða öskrandi, nema hvort tveggja sé, ofan á það bætast drottningargól móður þeirra og faðirinn hefur látið sig hverfa dágóðan spöl framfyrir hóp hinna hömlulausu, eins og hann komi honum ekki við. Við erum stundum illa fúnkerandi útgáfur af manneskjum, bæði sem einstaklingar og svo líka sem fjölskyldueining. En síðan sjáum við allt í einu eitthvað fyndið eða sjáum dúfu eða finnum ísbúð eða komum auga á fáránleikann sem við höfum skapað. Þetta er allt í lagi. Þetta getur auðvitað verið leiðinlegt, en þetta er eins raunverulegt og það verður.
Hin heilaga tálsýn. Þar sem allir fá sportað sínum bestu hliðum og enginn verður svangur eða reiður, eða lítt impúneraður yfir töfrum heimsins. Það rifjast upp fyrir mér þegar við heimsóttum Bled vatn í Slóveníu í sumar. Sá staður er með þeim fegurri sem ég hef litið. Mér tókst samt að fá kvíðakast í árabátnum sem við tókum far með yfir vatnið. Ég gat þó hlegið að því þegar kom í ljós að Hugi Hrafn beið í ofvæni eftir því sem ég óttaðist mest, að bátnum hvolfdi og við myndum synda með þá í land. Honum fannst frekar leiðinlegt að það gerðist ekki. Alveg æðislega vel stemmdur fyrir þessari mögulegu hryllingsmynd sem kvíðaskrímslið hafði teiknað upp af ferðinni. Á sama stað eftir að í land var komið aftur var Fróði búinn að fá gjörsamlega nóg af túristaþvælingnum og þegar við gengum upp brattann til að berja Bled kastala berum augum tjáði hann okkur með miklum þjósti að hann vildi frekar vera heima og tína upp hundaskít! Mér var ekki skemmt. Hversu mikið vanþakklæti gat einn drengur upplifað þegar hann átti að vera að upplifa bráðskemmtilegt, undursamlegt ævintýri umvafinn sínum nánustu ástvinum. En vitiði. Stundum erum við bara geðvond – svöng – og þreytt í miðjum ævintýrum. Þetta fór samt allt vel að lokum og við gleðjumst yfir endurminningunum.

Auðvitað er æðislega ákjósanlegt að við náum að hemja okkur – öll sem eitt – en þá helst þeir fullorðnu sem eiga aldur síns og þroska vegna að vita betur. Sannarlega næ ég oft að hemja mig og haga mér á sem minnst skaðlegan máta. Í breyskleika mínum næ ég því ekki alltaf og þá er gott að eiga bæði húmor og auðmýkt til að bæta fyrir brot sín. Ég elska samt að ég trúi því enn að allir muni haga sér, það er eitthvað svo jákvætt að halda það, en ég elska það líka vita inn í mér að öll ferðalög, lengri eða styttri innifela líka í sér viss vonbrigði yfir því að vera svona ferlega mikil manneskja.

Töfrar dagsins eru allar ferðirnar sem við leggjum upp í með fallvalta mennskuna í farangrinum. Megum við aldrei hætta þeim, jafnvel vitandi af farangrinum.
Comments