top of page
Search

Töfrar hinnar tæru gleði!

Í morgun fór ég og hitti Kristínu Lilju sálfræðinginn minn. Núna eru held ég þrjú ár síðan ég byrjaði að fara til hennar og hver einasti tími hefur veitt mér dýpri innsýn í sjálfa mig. Sumt liggur auðvitað mjög djúpt og þarf að vinna með lengi, en sumt hefur hreinlega tekið 100% viðsnúning á einum tíma. Ég til dæmis fór og skráði mig í háskólanámið eftir einn tímann, skyndilega sannfærð um að ég væri fullfær um að ljúka slíku námi. Eitthvað sem ég hafði þráð heitt svo árum skipti, en vegna undarlegs innra regluverks, gat ekki leyft mér að njóta. Ótrúlegt hvernig maður þarf bara að koma auga á sumt til að gefa því heimild til að breytast. Ég er alltaf að fatta eitthvað nýtt.


Í morgun gerði ég skemmtilega uppgötvun. Það er hvernig ég held aftur af mér þegar kemur að því að njóta gleði. Ein aðal mantran í lífi mínu undanfarin ár er að ekkert sé í rauninni neitt frábært. Þetta hljómar mjög leiðinlega og ég get tekið undir að það er það í raun og veru. Parturinn sem stjórnar þessu er eins og grátt seigfljótandi efni sem leggst yfir gleðina og hindrar leið hennar út. Þegar gleðin hefur séð gloppu, stoppar soppan í hana eins fljótt og auðið er. Því það er liður í fullorðinslífinu að vera á jörðinni og taka skynsamlegar ákvarðanir og vera eins og lífið ætlast til af manni. Þegar ég segi „eins og lífið ætlast til af manni“ á ég auðvitað fyrst og fremst við það kerfi sem ég hef komið mér upp til að lifa samkvæmt, en það er líka hluti af einhverskonar kollektívu kerfi sem við höfum í sameiningu komið upp í samfélagsgerðinni.


Að gráta úr hlátri...

Ég byrjaði mjög snemma að bæla þessa gleði. Því ég held að þessi hreina gleði og léttleiki sé í raun stór partur af grunngerð minni. Að elska að hlæja, hrífast og vera temmilega hömlulaus. Að beita því fyrir sig eða vera þannig er líka stór partur af ADHD parti mínum. Þar sem ég elst upp við aðstæður þar sem ég upplifði mikla skömm, var mjög auðvelt að upplifa djúpstæða skömm yfir eigin hömluleysi. Ofan á þetta bætist svo að þessi hreina gleði fari alls ekki saman með greind. Þannig að mér fannst ég þurfa að velja hvort ég væri gáfuð eða glöð. Ég þarf virkilega að halda því á lofti fyrir sjálfa mig sem fullorðna manneskju að gáfur og gleði geti bara vel farið saman.

Svo þegar ég varð eldri og byrjaði að vinna í mér, þá var í raun fyrsti viðkomustaðurinn minn áfengismeðferð og þar var strax bent á að ég væri að breiða yfir allt með trúðslátum. Ég þakka reyndar þeirri tvítugu sem spyrnti við fótum og sagði: Þessi trúður hefur haldið í mér lífinu! Hvar væri ég í alvörunni ef ég hefði ekki getað gert grín að hlutunum – í alvörunni?! Þarna varð samt til enn eitt lagið ofan á glaða partinn. Að þessu sögðu tek ég fram að ég skil alveg hvernig við getum trúðast áfram til að finna ekki sársaukann sem býr þar undir, en ég er samt ekki að tala um það hérna. Ég er að tala um hreina gleði. Gleði sem oft verður til þegar ég leik mér. Ég til dæmis upplifi mjög oft þessa hreinu gleði þegar ég dansa. Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér að undanförnu hver fyrirstaðan fyrir því að dansa er. Nú hefur fólk verið að koma og biðja mig um að vera með danstíma. Það kitlar eitthvað að vera með slíkan, en síðan kemur fyrirstaðan. Ég finn það núna að fyrirstaðan er í gráa efninu. Ég er sjálf að hindra mig í að upplifa hreina gleði.


Ég elska að finna til gleði og ég geri fastlega ráð fyrir að það eigi við um okkur öll. Hvað er ekki að elska við hreina gleði? Þessa leikgleði, sem væntanlega var í einhverju mæli til í barnæsku okkar allra. Þar sem við leikum okkur, hlæjum og erum jafnvel fíflaleg. Það má alveg skilja hvernig þetta verður að hættusvæði í lífi hinna fullorðnu. Við burðumst með þungann. Við berum ábyrgðina á lífinu. Þetta er svo mikill ábyrgðarhlutur að það má ekki fara með hann af einhverri léttúð og kæruleysi. Það er á pari við að spæla sjálft fjöreggið.


Að gráta meira úr hlátri

Ég held að þessi hliðvörður hinnar tæru gleði taki hlutverk sitt mjög alvarlega. Hvað ef ég fer nú í haminn sem ég hef stundum verið í og missi hreinlega stjórn á mér í gleðinni. Hvað gerist þá? Á móti velti ég því fyrir mér hvort ég hafi einhverntíman á fullorðinsaldri misst stjórnina á slíkan máta að stöðugleika lífs míns sé ógnað? Ég hef alveg farið inn í taumlausa gleði og ég hef alveg upplifað þynnku eftir slík ævintýri, en þá er líka eðlilegt að spyrja í ljósi þessara nýju upplýsinga hvort ljónatemjari gleðinnar hafi ekki haft eitthvað með það að segja? Ég held ég verði einhverntíman að skrifa um skömmina hérna, því hún er svo stór partur af lífi margra. Ekki hin heilbrigða skömm sem sýnir okkur þegar við höfum í raun gert eitthvað af okkur. Heldur skömmin sem er eins og þoka í Lundúnaborg. Allt um lykjandi og smýgur inn að merg. Skömmin sem eitrar orð okkar og athafnir. Kistillinn sem geymir bein allra okkar forfeðra. Þessi tegund af skömm. Sú eitraða. Kærir sig ekki um hina tæru gleði. Hún kærir sig ekki um að draga að sér athygli og alveg örugglega ekki vegna gleðiláta.


Ég vil næra gleðina í sjálfri mér. Ég vil leika mér, fílast, draga djúpt andann, hlæja magahlátri, ólmast og dansa. Ég vil líka leyfa mér að gleðjast yfir velgengni minni. Því það að klára í raun eitthvað og afreka hluti í eigin lífi felur í sér gleði. Og röddin háværa sem segir að ekkert skipti máli, því ekkert sem ég er að fara að gera muni í raun breyta einhverju í lífinu, gleymir að taka inn í myndina gleðina sem það getur veitt að gera eitthvað gott.


Leikgleði í Litháen. Mynd: Miglė Križinauskaitė

Ég verð stundum spéhrædd ef ég upplifi gleði yfir viðbrögðum annarra við verkum mínum. Eins og til dæmis eftir pistilinn á fimmtudagskvöldið. Eftir það hef ég ekki póstað pistlunum mínum á Facebook, það er mjög merkilegt að sjá að umferðin á síðuna er algjörlega háð því að ég pósti á Facebook, sem er þá stökkpallurinn. Það færir mér gleði að vita að þið séuð að lesa og ég vil helst að þið gerið það sem oftast.


Töfrar dagsins eru hin tæra gleði – megum við öll njóta hennar.

 
 
 

Comentários


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page