Tíminn - hin dýrmæta auðlind
- Annska Ólafsdóttir
- Nov 9, 2019
- 4 min read
Tíminn er skrítin skrúfa. Tíminn er líka það sem er mér einna mest hugleikið í lífinu eins og það leggur sig. Ég get endalaust velt vöngum yfir þessu magnaða fyrirbæri. Tíminn er bæði eitthvað sem er umlykjandi, yfir og allt um kring, og síðan er hann eitthvað sem við eigum. Ekki endilega í því magni sem við vildum óska okkur, en samt er það svo að okkur er öllum úthlutað 24 klukkustunda sólarhring og sjö vikudögum. Nema við deyjum einhversstaðar þarna í miðri viku. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að tíminn er dýrmætasta auðlindin sem hver manneskja á og eins og með margar aðrar dýrmætar auðlindir þá er hún óendurnýjanleg. Þegar hann er farinn – er hann farinn.

Ég hef, síðan ég komst til vits og ára, verið staðráðin í því að lifa lífi án eftirsjár. Fullorðins líf mitt hefur á margan máta verið alveg frábært og alveg í samræmi við þetta loforð sem ég gaf sjálfri mér. En eftirsjáin er lúmsk. Hún er svolítið eins og annars heims vondi-kall. Birtist allt í einu og kemur manni gjörsamlega í opna skjöldu. Rauður reykkarl í einhverri vísindaskáldsögu. Gátumaðurinn í Batman. Eðlilegt viðbragð við svona vondu-kalla heimsókn er að taka sverðið úr slíðrinu og berjast fyrir eigin lífi og limum af öllu afli. Það er samt ekki alltaf þannig með eftirsjána. Henni er oft boðið til samsætis, oft yfir lengri tíma meira að segja og í hvert skipti sem maður sest niður með henni er eins og maður kveðji með því að segja: Heyrðu ég var að hugsa hvort þú vildir ekki bjóða henni systur þinni í kaffi líka? Svo einn góðan veðurdag situr maður að sumbli með eftirsjánni og sjö systrum hennar sem eru hver annarri ágengari. Allt er auðvitað þegar þarna er komið sögu orðið fremur ömurlegt og sérstaklega þegar maður í þynnkunni fattar að maður hafi í alvörunni sjálfur boðið þeim inn.
Ég vildi óska að ég gæti sagt að ég lifði fullkomlega án eftirsjár. Að ég væri gjörsamlega viðloðunarfrí af slíkum ára. Nei. Eftir því sem árin færast yfir þá hugsa ég oft um hvernig ég hafi geta gert hlutina öðruvísi. Það er aðallega tvennt sem leitar á mig. Hvernig hefði ég geta hvatt mig til frekari framkvæmda í stað þess að sitja á mér af því að ég taldi mér trú um að framlag mitt skipti í raun ekki máli og líka auðvitað sleppa framkvæmdum því það var aldrei neitt nógu gott sem ég gerði. Ég hef lært nokkuð í þessum efnum og ég reyni að svíkjast ekki um ef hjarta mitt kallar eftir einhverju, minnug þess með eftirsjána. Svo er hitt eftirsjá eftir tímanum sem ég varði í að vera mér frekar farartálmi en fylgismaður. Eftirsjá yfir því að hafa ekki í raun látið vaða þegar tíminn virtist réttur, eða gefið því tíma og umhyggju að fylgja betur úr garði þeim sköpunarverkum sem ég kom í framkvæmd. Eins og þau væru í raun dýrmæt. Eins og þau væru í raun afsprengi þess dýrmæta tíma sem ég gaf þeim.

Tíminn er eins og þurr sandur. Þegar maður reynir að grípa hann grípur maður alltaf minna en það sem maður ætlar sér og um leið og maður er búinn að fanga hann rennur hann manni úr greipum. Hann finnur allar glufur til að seytla burt.
Klukkan er orðin rúmlega níu að kvöldi þegar ég skrifa þetta. Hvað tímann varðar er aftur farið að hægja á honum í framrás dagsins. Ég sé að það virðist vera viss rytmi í því hvernig tíminn yfir dagsspanið líður. Morgnarnir líða hægast. Ég get komið ótrúlega miklu í verk fyrir hádegi og ég veit ekki hversu oft ég hef furðað mig á því að klukkan sé bara hálf ellefu. Síðan byrjar tíminn að auka við skriðþunga sinn í kringum hádegið og eins og hendi sé veifað er klukkan allt í einu orðin fjögur. Síðan tekur krakkatíminn, matartíminn og krakkasvefntíminn yfirhöndina og siðan er klukkan allt í einu orðin hálf níu, níu. Þarna koma svo eins og tveir klukkutímar sem ég gæti varið til uppbyggjandi verka, en upp á síðkastið hef ég varið þeim í sjónvarpsgláp. Ég hugga mig við að það er yfirleitt ekki þannig. Að tímabilin sem ég hallast að sjónvarpstækinu eru sjaldgæf, þar sem það sem slíkt virðist ekki vera minn kjörmiðill. Svo vonandi verða kvöldin aftur félags-, skrifta-, eða lestursdrifnari.
Svipað á sér stað með tímann í ferðalögum. Alveg sama hvað þau eru löng. Fyrri hlutinn líður frekar hægt og hann er með mér í liði og gefur mér fyrirheit um að ég geti skoðað allt sem ég vil ofan í kjölinn. Síðan eykst skriðþunginn og síðustu dagarnir líða á hraða ljóssins.
Lífshlaupið í heild sinni er svona líka. Fyrstu árin líða löturhægt. Sem barn erum við líka alltaf að bíða eftir einhverju. Munið þið hvað það var óbærilega langt á milli jóla þegar þið voruð krakkar? Núna hugsa ég þegar ég tek niður jólaskrautið í janúar: Æ það tekur því nú varla að vera að pakka þessu niður. Það koma aftur jól í næstu viku. Mér finnst tíminn oft eins og snjóbolti. Fyrstu æviárin ýti ég þessum þunga snjóbolta upp í móti. Brekkan er löng og ströng og það er engin önnur leið en að fara hægt yfir. Í kringum 16 ára aldurinn (plús mínus) er ég komin á jafnsléttu og það gengur bara vel að rúlla boltanum. Allt er eins og það á að vera og þunginn hvorki of mikill né of lítill. Um það bil 25 ára fer að halla undan fæti. Það gerist hratt. Fyrst reynir maður að halda eitthvað aftur af boltanum og stemma sigu við hraðanum sem sífellt eykst. Nokkrum árum seinna tek ég þá afdrifaríku ákvörðum að stíga í veg fyrir snjóboltann í þeirri veiku von að það hægi á siglingunni á honum – og þá bara – vússssss! Hann hrífur mig með sér og ég fæ ekki rönd við reist. Snjóboltinn hendist á þúsund kílómetra hraða niður brekkuna og það eina sem ég get gert er að passa upp á að ná að draga andann við og við og slasa mig ekki á leiðinni. Síðan vitum við öll hvernig sú saga endar.
Það er ótrúlega skondið að þegar ég settist niður til að skrifa ætlaði ég ekki að skrifa um tímann. Ég var með allt annað töfr í huga, en töfrarnir láta ekki að sér hæða og laumast inn í gegnum rifurnar og setja púðrið í fingurna á lyklaborðinu.
Töfrar dagsins er tíminn. Tíminn. Tíminn. Sem svarar þessu eins og bergmál og minnir á alltumlykjandi návist sína og gildi. Hin dýrmætasta auðlind hverrar manneskju.

Comments