Skítt og laggó!
- Annska Ólafsdóttir
- Nov 29, 2019
- 4 min read
Ég þarf að gera játningu. Færslurnar hér í Töfradagbókinni eru oft ekki lesnar yfir áður en þær eru birtar. Ég hef svo stundum lesið þær einhverju eftir að ég birti þær og hugsa hvað textinn hefði getað verið vandaðri ef ég hefði gefið mér tíma til að lesa hann yfir. Alls konar smálegar villur, sem ég vil helst ekki láta spyrjast út um mig. Mér þætti voðalega fínt að hafa einhvern sem les yfir það sem ég geri. Ég get alveg verið fín í yfirlestri sjálf, ef því er að skipta, en til að svo megi vera þarf ég yfirleitt að fá fjarlægð við textann til að geta komið með fersk augu að honum að nýju. Oft geri ég það samt ekki þó ég hefði tímann. Þetta er ákveðið óþol. Þegar ég er búin að vera að vasast í einhverju í ákveðinn tíma er bara svo frelsandi að senda það frá sér. Það er samt gott að skila góðu verki, svo ég reyni að temja mér vandvirkni. Núna þegar ég ætla að skila texta af mér svona hratt, er viðbúið að hann sé ekki fullkomlega slípaður.
Í föðurarf fékk ég hinn dásamlega frasa: Skítt og laggó! Ég elska stundum að ástunda sögnina að skítt og laggóa! Ég veit að þetta er alveg vandrataður vegur, þetta hvort maður taki hlutina og sjálfa sig nógu alvarlega en ekki of alvarlega. Það er hægt að vera fullkominn þræll eigin ritskoðunar. Ekki gera þetta. Ekki segja þetta. Gerðu þetta. Segðu þetta. Jafnvel í miklu dýpri smáatriðum heldur en þetta, eins og að endurspila einhverja setningaruppbyggingu sem óvart laumaði sér út í orði eða í riti – aftur og aftur og aftur. Þetta er mjög þráhyggjukennt og ekki gott að lifa við slíka ógnarstjórn sjálfs síns. Líka þegar maður vill vanda svo ógurlega til verka að verkið klárast aldrei, því það er alltaf hægt að gera betur auðvitað. Hinn hræðilegi fullkomnunarsinni sest við stjórnvölinn og heldur járngreipum um verkið sjálft og ekki síður alla veru þess sem verkið á. Svo ég vitni í Huga Hrafn þá er það ekki gott. Ekki gott að vera í þessum ham. Ekki gott að vera ófrjáls í eigin skinni – fyrir sjálfum sér. Ekki gott að þjást af málstoli því það er ekki hægt að vanda það nóg sem kemur út um munninn. Þarna er kjörið tækifæri fyrir skítt og laggóið að koma inn. Svona er þetta bara. Skítt og laggó. Nú læt ég vaða. Skítt og laggó. Þetta er nógu gott. Skítt og laggó. Ég má tala vitlaust. Ég má skrifa vitlaust. Skítt og laggó. Vitiði að það eru mjög raunverulegar líkur á að það sem við gerum sé í alvörunni nógu gott.

Úlfur kom heim í nótt. Gott að vera búin að endurheimta hann. Hann hafði meðferðis málverk sem ég keypti mér í haust. Ég er ekkert smá hamingjusöm með það! Ég er búin að láta mig dreyma í nokkur ár um að kaupa mér hestamynd eftir Magnús Jónsson. Ég hef verið alveg heilluð af þeim. Litskrúðugar, skemmtilegar, hæfilega naíve og fela í sér léttleika, töfrastaði og töfrastundir. Það er ekki oft sem ég set háar peningaupphæðir í hluti (ekki að þetta málverk hafi verið neitt ógurlega dýrt). Ég hef átt skrítið samband við peninga og að splæsa svona í sjálfa sig þegar ég er til að mynda ekki með öruggar tekjur þar sem ég er í verkefnavinnu er náttúrulega fullkomið kæruleysi. Vitiði. Stundum er bara fínt að leyfa sér smá kæruleysi. Ég átti peninginn og ég mátti setja hann í listaverk. Ég er fullorðin og ég má ákveða svona. Það er enginn að fara að svelta og enginn að líða fyrir þessa ákvörðun mína. Skondið að átta sig á að það er sennilega þetta sem ég beið mest eftir með að verða fullorðin. Ekki að komast í einhver verslunarbrjálæði. Heldur að hafa þetta vald yfir eigin lífi og ákvörðunarrétti mínum. Ég tek það fram að ég geri mér ljósa grein fyrir forréttindum mínum. Forréttindum mínum til að velja og hafna. Forréttindum mínum til að geta einu sinni verið að velta þessum hlutum fyrir mér svona, það eru hlutfallslega færri heiminum sem geta leyft sér slíkan munað.
Við Úlfur höfum keypt okkur nokkur listaverk síðan við hófum sambúð og við höfum líka fengið list að gjöf. Þessi verk, ásamt munum sem hafa eitthvað tilfinningalegt gildi, eru það sem í raun skapar dýptina í heimilið okkar. Þetta er staðurinn þar sem hið veraldlega mætir hinu andlega. Þetta eru auðvitað veraldlegir hlutir, en hlutir sem lyfta andanum upp og gæla við sálina. Heimilið okkar er líka staðurinn sem mest af lífi okkar fer fram og það á alveg skilið að fá eitthvað sem nærir anda okkar sem þar búum. Ég er satt að segja engin brjálæðisleg smekkmanneskja og veraldlegir hlutir skipta mig meira að segja oft aðeins of litlu ef svo má segja, því ég hugsa ekki nógu vel um þá. En list. Listin gefur lífinu gildi. Kannski ekki eina gildið, en hún bætir svo miklu við.
Töfrar dagsins eru frelsi frá eitraðri sjálfsritskoðun sem hamlar okkur svo að við sleppum því að tjá okkur. Töfrar dagsins eru fólgnir í að leyfa sér smá kæruleysi við og við. Töfrar dagsins eru að segja stundum bara skítt og laggó og láta vaða.
Comments