top of page
Search

Sjálfshjálpin beint í eyrun á öld Internetsins

Í dag byrjaði ég að hlusta á bók sem heitir The drama of the gifted child. Ég byrjaði að hlusta án þess að vita í raun svo mikið um bókin, ég keypti hana í hálfgerðu bríaríi þegar ég var að eyða Audible inneigninni minni eftir að ég ákvað að færa mig yfir til Storytel. Ég valdi hana afþví að hún var sífellt að poppa upp sem bók sem væri mér sennilega að skapi. Merkilegt hvað Internetið les mann á augabragði, þrátt fyrir að þykjast agalega flókinn persónuleiki. Næst þegar ég er eitthvað að vandræðast með sjálfa mig ætti ég kannski bara að spyrja internetið í stað þess að vera alltaf í allri þessari sjálfsvinnu!


Í þessari bók er aðallega fjallað um hvernig börn geta mótað sig í hin og þessi form sem fylgja þeim fram á fullorðinsár, ef foreldrar þeirra með hegðan sinni og kröfur ætlast til þess af þeim og hvernig þau bæla „óæskilegar“ tilfinningar eins og reiði og hundsa þarfir sínar þar sem þarfir annarra eru mikilvægari. Þetta gerir það að verkum að þessi börn sem fullorðnar manneskjur fá ekki notið þess að vera þau sem þau eru í raun, heldur festast í viðjum þess sem þau halda að aðrir vilji að þau séu, eða halda áfram að birta þessa bælingu með óheilbrigðum aðgerðum og mjög skertri sjálfsmynd.


Ég er enginn nýgræðingur í að vera notandi sjálfshjálparbóka sem þessarar, en eftir að ég byrjaði að hlusta var ég ekki viss um að ég kynni við tóninn í henni. Ótrúlega fyndið að fatta að það eru augljóslega einhver blæbrigði í framsetningu á efni sem þessu sem ég kann betur að meta en annað. Ég las því um höfundinn, Alice Miller, og komst að því að hún væri þýsk og þá hugsaði ég með mér að auðvitað væru Þjóðverjar svona yfirleitt mun afdráttarlausari í framsetningu sinni en Ameríkanar. Ég komst svo að því áðan þegar ég las aðeins meira um uppruna bókarinnar að hún kom fyrst út árið 1979, svo það útskýrir líka eitthvað. En miðað við að vera skrifuð fyrir 1979 þá stenst hún ótrúlega vel tímans tönn. Ég er rétt tæplega hálfnuð, svo ég segi ykkur kannski meira frá henni eftir að ég klára að hlusta.


Hljóðbækur og aðgengi að þeim nú til dags getur vel verið töfrar dagsins. Við getum meira að segja valið um veitur sem falla best að þörfum okkar. Audible er auðvitað frábær ef maður er að hlusta á ensku og úrvalið alveg gríðarlegt, en ástæða þess að ég er að færa mig yfir á Storytel er svo ég geti hlustað á íslenskar bækur. Það tók mig smá tíma að venjast því að hlusta á bækur, þegar ég byrjaði var athyglisspanið mjög takmarkað og oftar en ekki hafði ég ekki hugmynd um hvað ég hafði verið að hlusta á. Mér gengur mun betur að hlusta en er alveg búin að sjá að það skiptir samt máli hvernig bókin er sem ég er að hlusta á. Mér gengur til dæmis ekkert of vel að hlusta á bækur sem flakka um á milli ólíkra sögusviða, eða hafa ítrekað of langar flóknar lýsingar. Mér virðist ganga best að hlusta á bækur sem fjalla um sálarlíf hins innri manns (takk Nýdönsk) með einhverjum hætti. Mér hins vegar gengur ljómandi vel að lesa annarskonar bókmenntir. Ég tek upplýsingar mjög ólíkt inn í gegnum augun og eyrun.


Ég elska að stúdera hvað það er sem gerir okkur að því sem við erum. Afhverju hafa nokkurn vegin sömu hlutir gjörólík áhrif á tvo einstaklinga? Hvernig virðast sumir geta haldið áfram lífsveginn og aðeins þurft að bursta af sér snuddið á meðan að einhver annar á varla afturkvæmt til daglegs lífs? Er þetta mest spurning um hvaða sjálfsvarnarmekkanisma við notum? Hvernig verða sumir þunglyndir og aðrir kvíðnir? Afhverju fara sumir í fíknimynstur, aðrir meðvirkni og enn aðrir í hvort tveggja. Við erum svo ótrúlega flókin fyrirbæri mannskepnan, þó einhverjir vilji kannski meira að við séum ofureinföld. Nei við erum flókin, marglaga, hörð eins og klettur, mjúk sem dúnn og allt þar á milli. Það sem dugar fyrir einn þarf alls ekki að duga fyrir annan. Það er þó alltaf verið að rannsaka og jafnvel sannreyna ólík sjálfshjálparmeðöl og vil ég aftur mæla með EMDR og líka Brainspotting fyrir fólk með flókna áfallastreitu. EMDR er mikið rannsökuð, Brainspotting aðeins minna, en þær hafa svipaða virkni og notagildi. Ég get t.d. sagt að það dugði ekkert fyrir mig að reyna að beita fyrir mig aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (sem hefur verið ein vinsælasta meðferð hér á landi undanfarin ár) á mál sem voru snúin fyrir mig að glíma við, en hinsvegar eftir að hafa verið í EMDR/Brainspotting á ég auðveldara með að gera það núorðið.


Sjálfshjálparbækur sem bókmenntagrein þykir ekkert sérlega töff og margir sem fetta fingur út í þær. Það er alveg ágætt, því þær frekar en aðrar bækur, eru sannarlega ekki hafnar yfir gagnrýni og einhverjar beinlínis varasamar. Reyndar myndu margar bókanna sem ég hlusta á/les falla undir sálfræði/psycology, en þær eru sjálfshjálparbækur engu að síður. Ég er vaxin frá því að vilja lesa bækur sem segja mér hversu frábær ég er og hvað ég á nú kost á því að verða rík og fræg og sigra heiminn – því allir geta auðvitað sigrað heiminn (!). Ég er ein af þeim sem var alveg dolfallin yfir the Secret á sínum tíma, en held að ég hafi orðið aðeins jarðbundnari með árunum og líka þar sem ég er minna í andlegu deildinni en þá, þá tekur það líka burtu ákveðna gerð sjálfshjálparbóka. Ég held satt að segja, þrátt fyrir góðan ásetning, þá séu sumar þessara bóka betur til þess fallnar að færa okkur fjær okkur en nær.



Ég hlustaði á bók í haust sem mér þótti stórkostleg. Ein af þeim bókum sem opnuðu augu mín fyrir nýjum sannindum um sjálfa mig og aðra. Bókin heitir Complex PTSD – from surviving to thriving, eftir Pete Walker. Þar fer hann ofan í saumana á því hvernig það að alast upp við vanrækslu og/eða ofbeldi leiðir það af sér að fólk þróar með sér flókna áfallastreituröskun sem er ólík áfallastreitu að því leytinu til að hún er ekki bundin við tiltekið áfall, heldur eitthvað sem myndast við að búa við ótryggar/hættulegar aðstæður yfir lengra tímabil í bernsku. Bókin er skrifuð af mikilli fagmennsku og djúpri innsýn inn í þessa röskun, hvernig hún myndast og hvernig hún birtir sig síðar á lífsleiðinni. Þeir sem eru haldnir þessu festast í yfirkeyrðum viðbrögðum, fight, flight, freeze og hann bætir fjórðu viðbrögðunum við: fawn, sem er meðvirkni. Hann fjallar mikið um hvaða leiðir hafa reynst best til heilunar og hvaða bækur er hægt að lesa um ólík málefni og er því bókin í leiðinni ljómandi fínt uppflettirit. Ég held ég hafi sagt öllum sem ég hitti á þessu tímabili að lesa þessa bók – hún er algjör negla.


Mér hefur alltaf þótt fremur vænt um töffarapartinn í mér og ég get sagt ykkur að það að blogga um sjálfshjálparbókmenntir er honum ekki að skapi. En vitiði líka hvað, mér er orðið mun meira sama um það hvort fólki finnist ég töff. Mér finnst skipta meiru máli að vera sjálfri mér samkvæm. Kannski hafa þessar bækur verið einskonar sakbitin sæla (e. Guilty pleasure) en þær eru hluti af því hvernig ég vex og mótast og spegla sjálfa mig. Ég vildi sannarlega ekki vera án þeirra.


Töfrar dagsins auk hljóðbóka eru því bækurnar sem hjálpa okkur að skilja okkur betur – hverjar sem þær kunna að vera!

 
 
 

Comentários


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page