top of page
Search

Lífið er meira spennandi með ögn af mystík

Það getur verið magnað þegar handahófskennd tilvik eða hlutir raða sér þannig upp fyrir skilningarvitunum að þau virðast vera allt annað en þau eru við fyrstu sýn. Stundum gerist það með svo afgerandi hætti að það er erfitt annað en að gefa því gaum. Mér finnst veröldin oft of ferköntuð og leita stundum eftir átyllum til að halda að ekki sé alltaf allt sem sýnist. Þá er ég hvorki að tala um samsæriskenningar eða svik. Heldur eitthvað fínlegt og óáþreifanlegt sem kemur upp um alheiminn að hann virki jafnvel á mörgum sviðum samtímis. Mystík. Hin heilaga mystík. Hvernig við fáum allt í einu manneskju í hugann, kristaltært, sem við höfum ekki heyrt, séð, né hugsað um svo árum skiptir. Skömmu síðar rekumst við svo á viðkomandi manneskju eða hún hringir. Líka þegar við erum að fara að gera eitthvað og einhver veik (eða hávær) rödd innra með okkur segir okkur að breyta um plön, fara hingað og eitthvað gerist, fara ekki þangað og eitthvað gerist. Eitthvað gerist sem breytir framvindunni hjá okkur og innsæið okkar gerði allt sem í sínu valdi stóð til að láta okkur vita. Ég veit að svona nokkuð kann að vera snúið. Við gætum verið í kvíða eða þunglyndi sem litar hugsanaháttinn og rýrir sannarlega traust okkar til okkar sjálfra, séum við meðvituð um það. Ég tala nú ekki um ef um erfiðari geðraskanir er við að etja.


Í morgun var akkúrat eins og alheimurinn væri að segja mér eitthvað. Kannski að gefa mér töfraorð til umhugsunar. Ég var að vinna í að afrita texta og núna er ég að æfa mig í að hlusta á hlaðvarpsþætti á meðan ég vinn. Ég ver yfirleitt miklum tíma í þögn og það hefur gagnast mér vel. Ég kann vel við að vera í þögn. Síðan fannst mér eins og ég gæti verið að missa af einhverju, með öll þessi podköst í heiminum. Þó það fari enn helmingurinn af þeim fyrir ofan garð og neðan, er stundum eitthvað sem seytlast inn. Mér finnst þau oft skemmtileg og áhugaverð, en síðan verð ég líka stundum bara þreytt í hausnum á síbyljunni og hverf aftur til þagnarinnar.


Í morgun hlustaði ég annarsvegar á gamalt viðtal sem Michael Stone tók við Gabrielle Roth um 5 Rytmana og hinsvegar hlustaði ég á Chase Jarvis tala við Brandon Stanton, sem er maðurinn á bak við Humans of New York, sem eflaust margir kannast við. Fjórum sinnum gerðist það að nákvæmlega sama og ég var að skrifa var sagt í hlaðvarpinu. Fyrst hugsaði ég: Nei, en skondið. Í annað skiptið sem það gerðist hugsaði ég: Nei, hver andskotinn, gerist þetta aftur í dag! Þá fór ég og leitaði uppi hvað það var sagt í fyrsta sinnið og skráði það niður, ásamt því sem ég hafði nýheyrt og séð í svona fullkomnu flútti. Síðan gerðist þetta í þriðja sinn og þá hugsaði ég: Nei hættu nú alveg! Svo þegar þetta gerðist í fjórða sinn var ég bara: Nei þetta getur ekki verið neitt, þetta er of absúrd!



Sem sagt fjórir hlutir sem komu upp á sama tíma í textanum fyrir framan mig og í eyrunum á mér. Það fyrsta var úr viðtalinu við Gabrielle og það var: To be present in the moment eða að dvelja í líðandi stund, vera hér og nú. Það eru góð skilaboð inn í flestar aðstæður. Meira að segja þarf það að eiga sér stað í sálfræðimeðferðum. Á meðan þú ert að kafa aftur í fortíðina, verður fullorðni aðilinn að vera hér og nú. Að vera hér og nú getur skapað svo undursamlega tilfinningu samhljóms hið innra. Ég er hér, ég er hér núna, þetta er það sem ég upplifði, þetta er það sem ég sé, heyri og finn.


Það næsta sem var séð og heyrt í samhljómi var community eða samfélag. Fátt er mikilvægara í lífi hverrar manneskju en samfélagið sem hún er í. Það hefur til dæmis sýnt sig í rannsóknum á langlífi og heilbrigði að samfélag fólks hefur mjög mikið vægi. Hinir langlífustu og heilbrigðustu eru virkir þátttakendur í samfélaginu, þeir eru bæði að þiggja frá því og þeir eru að gefa til þess – og þeir finna fyrir því að kraftar þeirra skipta máli.


Það þriðja sem kom upp var understanding eða skilningur. Ég vil stundum meina að það sé skilningurinn sem gerir okkur frjáls. Skilningur allavega útvíkkar sýn okkar og getur veitt okkur umburðarlyndi gagnvart bæði sjálfum okkur og öðrum. Þau hafa verið ófá AHA! mómentin í lífi mínu, þegar eitthvað loks smellur saman. Það verður stundum ekkert minna en opinberun inní mér.


Það síðasta og minnst spennandi reyndar var clear, eða skýr. Það kannski helst í hendur við skilninginn, því þegar ég hef farið í gegnum stund opinberunar verður það sem ég hef verið að vandræðast með allt í einu ofurskýrt og meira að segja stundum skil ég ekki hvernig þetta hefur geta vafist svona fyrir mér. Svona eins og felumyndir, þarna eru fjórir kertastjakar, nei þetta eru fjögur börn. Hérna er mynd af gamalli konu, nei bíddu þetta er ung kona. Eða mynd sem virðist vera einhver grautur en síðan er hún bara af kúreka. Skýrleiki er líka mikilvægt innihaldsefni í samfélagi mannanna. Við þurfum að hafa skýrar leikreglur. Við þurfum að vita hvað má og hvað má ekki og síðan það sem getur reynst snúið – að vera skýr með fínlegri leikreglur okkar sjálfra. Þar sem við erum ekki framleidd á færibandi, nákvæmlega samskonar, þá þurfum við hvert og eitt okkar að vera með nokkuð opinberar leikreglur og við þurfum líka að geta gefið upplýsingar um hvenær þær eru brotnar. Það er fátt eins óþægilegt og reyna að átta sig á leikreglum annarrar manneskju, þegar maður hefur áttað sig á að þær eru ekki í samhljómi við manns eigin. Ávísun á meðvirkni.


Töfrar dagsins er þegar hlutirnir koma til manns eftir krókaleiðum, töfrar dagsins er þegar alheimurinn sýnir skyndilega undravert samræmi, töfrar dagsins er mystíkin og töfrar dagsins eru fólgnir í að gefa því gaum sem ekki virðist endilega augljóst.

 
 
 

Comentários


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page