Hvert örstutt andskotans spor
- Annska Ólafsdóttir
- Nov 17, 2019
- 4 min read
Nú er ég tæplega hálfnuð með þetta bloggævintýri, í það minnsta eins og ég lagði upp með það. Í dag er staðan þannig að mér finnst þetta leiðinlegt. Mér finnst ég leiðinleg og mér finnst ég ekki hafa neitt skemmtilegt eða áhugavert að segja. Mér leiðist tónninn í mér og hugsa að ykkur leiðist hann líka. Mér finnst ég ófrumleg og klisjukennd.
Ég er ekki að biðja ykkur um að segja mér að ég sé skemmtileg með því að deila þessu með ykkur og ég veit ekki hvort ég þurfi á því að halda að heyra einhvern segja að þetta skipti máli. Sennilega er alltaf gott að heyra að það sem maður er að gera skipti máli samt, en það er þó engu að síður aðal-málið að við sjálf bökkum okkur upp í því sem við erum að gera. Annað er aðeins bónus. Við verðum að trúa því að einhversstaðar skipti þetta máli í því sem við viljum gera við tíma okkar og orku. Ég tala nú ekki um að þetta sé eitthvað sem skiptir máli þegar litið er á heildarmyndina sem safnast saman og skapar á endanum líf okkar. Því líf okkar er ekki ein stór kaka sem án nokkurra innihaldsefna og aðgerða birtist allt í einu bökuð og skreytt á eldhúsborðinu. Hún er innihaldsefnin, hún er allar fjölmörgu aðgerðirnar sem tók til að koma henni í þetta horf. Meira að segja er hún líka aðbúnaðurinn. Það þarf viss skilyrði til að kaka verði að köku.

Mig hefur oft skort sjálfsaga og fókus. Eins og ég hef talað um að vera með vitið í fótunum. Það hefur oft verið ofan á. Að vera einskonar viðbragð við því sem gengur á. Ég upplifði því alveg nýja hluti þegar ég fór í nútímafræðina við Háskólann á Akureyri. Frá fyrsta degi tók ég námið föstum tökum, þó ég þyrfti í raun ekki að eiga það við neinn nema sjálfa mig að klára það. Það hjálpaði reyndar óendanlega mikið að við Matta værum í þessu saman og fékk ég mikinn stuðning af því að vera með vinkonu á kantinum í sömu sporum. Þar sem ég fékk svo metið inn ferðamálafræðinámið mitt á Hólum gat ég í raun tekið námið á tveimur árum, svo við vorum ekki alveg að fást við sömu námsgreinar seinni veturinn minn. Veigamesta lexían sem ég lærði er sú að geri ég alltaf smá og smá og svo smá meira – þá klárast verkefnin á endanum. Þegar mér fannst eitthvað þungt og leiðinlegt gat ég alltaf sagt mér að gera bara smá og svo sagði ég mér aftur að gera bara smá. Það er dropinn sem holar steininn. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega úthaldsgóð, svo þetta var mikil uppgötvun fyrir mig.

Að blogga þetta er, ekki síður en töfraleitin, þessi úthaldsæfing. Ég er að skrifa og ég er að skrifa á hverjum degi. Ég verð að minna mig á að ég er að gera nákvæmlega það sem ég lofaði sjálfri mér að gera og yfirleitt veit ég ekkert skemmtilegra en að skrifa. Ég hefði samt alveg mátt segja mér að það yrði leiðinlegt á einhverjum tímapunkti. Að ég fengi leið á mér. Að mér fyndist brunnurinn tómur. Það er ekkert nýtt. Að einhverju leyti er það órjúfanlegur partur af sköpunarferlinu.
Að vera eða ekki vera – þarna er efinn
Að gera eða ekki gera – þarna er efinn
Að gera ekki eða gera – þarna er efinn
Að hugsa eða ekki hugsa – þarna er efinn
Að láta vaða eða ekki láta vaða – þarna er efinn
Þarna er efinn. Þarna er nánast alltaf efinn í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Efinn getur verið hollur og góður, en síðan þurfum við líka að geta svarað honum fullum hálsi þegar svo ber undir. Efast og halda svo áfram þá braut sem við höfum valið í það og það skiptið. Nú eða skipta ef brautin er einfaldlega ekki okkar. Á þessum tímapunkti er það ekki besti valkosturinn að skipta um braut. Ég veit það fyrir víst að það mun þjóna mér betur að efna loforð mitt gagnvart sjálfri mér en það myndi gagnast mér að svíkja það. Alveg eins og í háskólanáminu. Fyrirheitna landið er þegar ég er búin að gera smá og svo aftur smá í tiltekinn tíma þangað til lokamarkinu er náð.
Efinn er líka bundinn við að það muni í raun ekkert veita mér þá lífsfyllingu sem ég leita eftir. Fyrir einhverja er alveg skýrt hver markmið þeirra eru í lífinu og sumir eru svo heppnir að finna fjöl sem þeir eru vissir um að sé þeirra. Þá er ég aðallega að tala um í skilningi þess að finna sinn starfvettvang. Ég hef verið mjög lánssöm. Ég hef fengið að prófa allskyns störf og fengið að máta mig inn í ólíkar atvinnugreinar. Ég er alin upp í að vera dugleg og ósérhlífin og lengi var það að lifa upp í þá staðalmynd stór hluti af sjálfsmynd minni. Núna vil ég bara vera eins dugleg og ég þarf. Ég hef engan áhuga á því að skila af mér slæmu verki og læt slíkt yfirleitt ekki henda – en mesta mannvirði mitt er ekki bundið því að vera dugleg.
Ég vil vera sönn. Ég vil geta fylgt mér eftir í þær áttir sem hjartað leiðir mig. Ég vil finna að það sem ég er að gera skipti mig einhverju máli. Ég lifi við einstök forréttindi í dag, að geta valið. Það er engin smá gjöf, en slíku frelsi fylgir líka ábyrgð. Á sama tíma og ég finn kraftinn sem fylgir þessu finn ég líka skerandi efann og óttann við að ég finni aldrei almennilega út úr þessu með lífið og nái ég að láta fleiri drauma rætast þá verði það ekki það sem það lofaði að vera.
Töfrar dagsins eru litlu skrefin. Litlu skrefin sem skila okkur á endanum heildarniðurstöðum. Litlu skrefin sem leiða okkur í áttina að okkar sanna sjálfi. Litlu skrefin sem skora efann á hólm hvenær sem þess gefst kostur. Litlu skrefin við að baka lífskökuna. Litlu skrefin sem eru hvert og eitt í sjálfu sér heill heimur til að njóta eða varast. Litlu skrefin.
Það er nú bara þannig að ég þurfti einmitt og akkúrat á þessum skref-skrifum að halda Annska mín, þú ert spegillinn sem ég valdi mér að skoða þessa daga og jú, ég sé mig!