top of page
Search

Ferðafélagi #1

Ég er svo södd að mig sundlar. Það er ekki oft sem það gerist að ég borði þangað til ég stend á blístri. Yfirleitt er það þá vegna þess að ég misreikna mig eitthvað og nem ekki skilaboðin í tæka tíð um að nóg sé komið. Svo best að sjá hvort ég geti ekki skrifað eitthvað í gegnum seddusortann.

Í gær vorum við Úlfur að skoða gamlar myndir. Ég drukknaði smá við þessa myndasýningu af lífi okkar fyrstu árin saman. Mikið höfum við átt margar góðar stundir. Það er svo ótrúlega margt sem við höfum brallað þessi 18 ár sem við höfum verið saman. Eftir svo langan tíma í sambandi með annarri manneskju má geta sér til um að við höfum fengið okkar skerf af öllu. Ég þori að fullyrða að öll sambönd sem hafa staðið í svo langan tíma hafi séð sinn skerf af ljósi og líka dágott safn af skuggum. En hvernig sem birtuskilin hafa leikið okkur þá erum við hér enn sem einingin sem við tvö erum. Mér finnst satt að segja alveg magnað að flautaþyrillinn sem ég hef oft verið í gegnum dagana skuli geta verið í sambandi í svona langan tíma. Yfirleitt finnst mér allt vera orðið leiðinlegt eftir smá tíma, en mér hefur aldrei þótt svo innilega leiðinlegt að vera með honum Úlfi mínum að ég hafi séð það sem vænsta kostinn að fara. Þó hefur alveg verið leiðinlegt hjá okkur stundum. Eða kannski hefur einhverntíman verið svo leiðinlegt að mig langaði að fara, en það er líka þannig að þegar maður hefur heitbundist annarri manneskju með þessum hætti þá fer maður ekki um leið og það hvessir. Svo jú ætli það sé ekki alveg hægt að segja að við höfum staðið af okkur bæði storma og sjói.



Þegar ég skoðaði myndirnar hugsaði ég fyrst og fremst um það hvað það hefur oft verið gaman hjá okkur. Mikið af myndunum var að sjálfssögðu úr ferðalögum. Er það ekki klassískt þegar eldri myndir eru skoðaðar - jól og ferðalög. Ég segi það oft að eitt það allra besta sem við höfum er hversu vel við ferðumst saman. Þess vegna hef ég það sem reglu að við förum í allavega eitt stórt ferðalag saman á ári og oft annað minna með. Við höfum það reyndar frekar gott á heimaslóðum líka, en auðvitað er hversdagslífið frábrugðið frídögunum og eðlismunur þess mikill. Þó mér leiðist að viðurkenna, og femíníska hlið sjálfrar mín fer alltaf pínu á hliðina þegar ég tala um það, þá er lífið okkar hér heima frekar kynjað. Úlfur vinnur eins og skepna og ég sé að mestu um það sem viðkemur heimilinu og börnunum. Þetta er kannski ekki nútímalegasta uppskriftin en ég er búin að sætta mig við að þetta sé svona. Sætta mig við hljómar svolítið eins og þetta sé áþján, sem það er yfirleitt ekki, en ég hef gert þó nokkur áhlaup til að breyta þessu og það endar yfirleitt bara í pirring. Það er samt ekki þannig að mér finnist ég í einhverri uppgjöf. Það er þetta með að velja slagina sko. Núna er þetta allavega svona og ég er ekki í nokkurri sjálfsvorkunn yfir þessu hlutskipti. Sjáum svo hvað setur. En annars finnst mér ótrúlega mikil blessun að eiga hann Úlf í lífi mínu og mér finnst alveg dásamlegt hvað við eigum almennt friðsæl samskipti. Úlfur er einstakt góðmenni, geðgóður og skemmtilegur og þó ég geti verið meiri vargur þá erum við bæði frekar róleg heimavið. Það getur verið mikið líf og fjör, en það getur líka bara verið lygn sjór. Heimilið okkar er griðastaður eins og ég kom inn á í annarri færslu fyrir nokkru. Hversu þakkarvert er það?!



Eftir allan þennan tíma þekkjum við líka hvort annað vel. Úlfur veit að ég vil að hlutirnir séu sagðir hreint út og umbúðalaust á meðan að ég veit að hann vill sykurhúðuðu útgáfuna. Við vitum líka að hitt beitir þeirri aðferð sem því sjálfu finnst betra. Nema við erum líka búin að læra hvernig best er að tækla málin ef annað hvort okkar er á skuggalendum sjálfs síns. Það er svo margt sem lærist. Við tókumst til dæmis mikið á um það hvernig best væri að koma fram við mig í kvíðaköstum. Undir áhrifum testósteróns hefur Úlfur oft viljað laga hlutina og laga þá strax og laga mig þegar ég er í kvíða. Þá hefur hann komið með allskonar ráðleggingar hvernig er best að koma mér út úr ástandinu, en í seinni tíð, hefur hann bara verið góður við mig á meðan þetta ástand varir. Hann talar fallega til mín og býður mér aðstoð sína. Ég held hann viti ekki hvað mér þykir vænt um það.

Hlátur er eitt af því sem hefur einkennt samband okkar frá fyrsta degi. Þegar ég segi fyrsta degi þarf ég eiginlega að taka fram að við Úlfur byrjuðum ekki með hvoru öðru á sama tíma. Það tók okkur smá tíma að finna taktinn saman í byrjun og ætli ég hafi ekki byrjað með honum svona eins og hálfu ári áður en hann byrjaði með mér. Við höfum oft hlegið að því. Við hlæjum hátt, við hlæjum innilega og við hlæjum frekar oft. Við hlæjum talsvert að sjálfum okkur og við höfum hlegið að skemmtilegum minningum og við höfum hlegið að ömurlegum minningum. Úlfur er les- og skrifblindur fyrir allan peninginn og stundum fer hann þannig með orð og texta að ég míg næstum í brækurnar af hlátri. Eina nóttina til að mynda var Úlfur andvana. Það væri náttúrulega ekkert fyndið ef það hefði verið satt en hann var andvaka!



Ég held að það sé alveg óhætt að segja að við bætum hvort annað upp. Við erum á öxli hvort við annað í stjörnumerkjunum – hrútur og vog – og hvort sem þið “trúið” á stjörnumerkin eða ekki þá erum við oft í styrkleikum okkar og veikleikum á svipuðum öxli. Gulli Bergmann heitinn sagði við okkur einu sinni....já hrútur og vog.....það er alveg rosalega vont....en líka alveg rosalega gott.


Töfrar dagsins eru fólgnir í að eiga ferðafélaga í gegnum lífið. Ferðafélaga sem stekkur ekki frá borði þegar gefur á bátinn og ferðafélaga sem hlær af viðlíka krafti og þú sjálf/ur. Ferðafélaga sem hefur séð þig skína sem sól og séð þig dimma sem svarthol. Ferðafélaga sem er góður við þig þegar þú þarft á því að halda <3

 
 
 

Comments


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page