Afhverju töfrar?
- Annska Ólafsdóttir
- Nov 5, 2019
- 3 min read
Jæja. Þó hægt sé að gera heimasíðu í einum grænum, þá þarf oft meira til svo fullkomna megi verkið. Ég er enn að kljást við einhverjar villumeldingar inn á stjórnborðinu og núna var ég að enda við að henda árunum í bátinn. Ég nenni ekki að verja meiri dýrmætum tíma í að reyna að finna út úr þessu. Töfradagbókin er komin í loftið og þó ég hafi ekki beinlínis verið að auglýsa hana er fólk byrjað að lesa. Vandi minn varðandi síðustjórnunina er fólgin í að hún er ekki farin að sýna sig á leitarvél Google. Ég finn væntanlega út úr þessu á endanum – en ekki núna.
Töfradagbókin er komin í loftið og ég farin að skrifa. Þessu fylgja allskonar tilfinningar. Ég upplifi spenning og forvitni. Feimni og spéhræðslu. Hvað hef ég að segja? Hvert leiðir þetta mig? Vilja einhverjir lesa? Finnst fólki þetta asnalegt? Eins og mér leiðist að viðurkenna það þá velti ég því fyrir mér hvort fólk haldi að ég sé annaðhvort takmörkuð eða athyglissjúk með þessum gjörningi. Ég ákveð þó að nota það sem olíu á sköpunareldinn og sem úrvalstækifæri fyrir hugrekki mitt til að vaxa. Að setja dagsetningu eða markmið út í alheiminn með opinberum hætti getur hjálpað okkur að framkvæma, það eru margsönnuð vísindi. Í flestum tilfellum er það þannig að þegar við erum komin með dagsetningu/skilafrest þá tökum við okkur til og klárum verkið. Að ég hafi gert þetta blogg með það yfirlýsta markmið að skrifa daglega um töfra í einn mánuð er skilafresturinn minn. Mér finnst nefnilega miklu erfiðara að svíkja loforð sem ég gef öðrum en þau sem ég gef sjálfri mér.
Já afhverju töfrar? Ætti fjörtíu og fjögurra ára kona einu sinni að vera að velta fyrir sér töfrum yfirleitt? Vex maður ekki upp úr slíkum barnaskap? En töfrarnir láta ekki á sér standa þegar maður byrjar að gefa þeim gaum. Eitt það fyrsta sem ég rak augun í á morgunfésbókarskruninu var þessi mynd:

Við hvaða götu tapaðir þú barnslegri upplifun þinni af undri? Tilvistartómhyggjan finnur sér leiðir í lífinu og upplifa undur virðist eins og mjólkin eiga sér síðasta söludag. Það hefur allavega verið raunin í mínu lífi og ég sé það gerast í lífum fólks eftir því sem árin færast yfir með öllum þeim sársauka og angri sem þau geta falið í sér. Mér finnst stundum lífið vera eins og skógarhöggsmaðurinn sem klippir vængina af Dísu litlu ljósálfi. Ég vil ekki gefast upp á því að inn í okkur öllum sé þessi litli ljósálfur sem eins og aðrar hliðar okkar þarf næringu til að dafna. Ég er komin með leið á það-skiptir-ekki-máli viðhorfinu. Ég get svarað nánast hverju sem er með: það skiptir ekki máli. Fyrir þá tilvistarkrepptu sem baðar sig í tómhyggjunni skiptir ekkert í raun máli því lokasvarið er alltaf að við munum deyja. Svolítið trist. Við munum deyja og því skiptir ekkert af því sem við gerum máli. Er það virkilega svo? Ég kýs að trúa ekki. Ég vil frekar trúa því (og þarf að minna mig á það reglulega) er að þegar öllu er á botninn hvolft skipta hlutirnir máli. Því það er samansafn alls þess litla sem skapar heildina. Við sérstök skilyrði sjáum við stök rykkorn. Þegar þau hafa safnast saman dyljast þau okkur ekki.
Í anda þess að velja hvert við beinum athygli okkar rifjast upp fyrir mér sagan um úlfana tvo. Fyrir þá sem ekki þekkja fjallar hún um Indíánahöfðingja sem var að kenna afastráknum sínum um lífið. Afinn segir stráknum að inní sér sé háð barátta tveggja máttugra úlfa. Annar er illur og hefur að geyma gremju, öfund, lygar, falskt stolt, upphafningu, sjálfsefa og aðra ókosti. Hinn er góður og felur í sér ást, gleði, frið, von, örlæti, trú og aðra kosti. Hann bætir því við að inní stráksa eigi sér stað sami slagur.
- Og hvor úlfurinn vinnur? Spyr stráksi
Afi svarar: Sá sem þú nærir
Að þessu sögðu vil ég taka fram að ég geri mér mjög ljósa grein fyrir því að við eigum öll og glímum við tilfinningar inn á skuggarófi flórunnar. Ég er ekki að fara að hætta því að mæli ekki með því fyrir nokkurn að hundsa þar sem raunverulega á sér stað hið innra. Það sem ég er að gera er að færa fókuspunktinn. Ég vil ekki hætta að undrast og spyrni því við fótum með þessum hætti.
Mér finnst undur ótrúlega fallegt orð. Bæði er það svo hljómfagurt og vænt ásýndum, ásamt því sem merkingin er svo falleg.
Úr Stafsetningarorðabókinni: undur undurs; undur undur og stórmerki; undra|veröld; undur|blíður; undra|mikill
Undur og stórmerki! Lágstemmd undur og stórmerki. Ég verð að segja að mér leiðist að heyra þetta orð nánast einvörðungu notað þegar einhver í fréttunum undrast yfir athugasemdum eða aðgerðum annarra.
Töfrar dagsins eru því töfrarnir sjálfir í öllu sínu veldi og öllum sínum birtingarmyndum. Hvort sem þær eru kunnuglegar eða framandi.

Commenti