top of page
Search

Af þrifum...

Dagurinn fram til þessa hefur verið gjöfull og ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Þá er nú aldeilis gott að vera með Töfradagbók, þar sem ég get bara sagt: já, skemmtilegt þetta líf! Það þarf ekkert svakalegt til að dagur teljist ljómandi góður. Ég hef náð að vinna vel, ég hef átt innihaldsrík samskipti og ég hef fylgt mér eftir í að ráðast í – og standa við. Sennilega má frægt telja að í gær í leiðanum sem ég fékk á sjálfri mér ákvað ég að ráðast í aðra geymsluna í kjallaranum. Já við erum með tvær geymslur – og fólk eins og við ættum í mesta lagi að vera með eina! Nú höfum við búið hér á Hlíðarveginum í fimm ár og hversu oft hef ég þrifið geymsluna? Ég skal svara því – ég hef aldrei þrifið geymsluna! Nú takið þið kannski eftir að ég tala um geymslu í eintölu, því jú, maður þarf víst að byrja einhversstaðar. Önnur geymslan, sú stærri, þokast hratt í áttina að því að verða fín. Það er ekkert smá hversu ein lítil fjölskylda getur safnað af drasli. Þar sem ég veit að eins manns drasl getur verið annars manns fjársjóður, er mikið af dótinu nú á leiðinni til kvenfélagsins Hvatar, sem um komandi helgi verður með árlegan flóamarkað sinn. Sá flóamarkaður er nú aldeilis skemmtilegur og hef ég oft gert ljómandi góð kaup þar. Mér hefur alltaf fundist gaman að fara á flóamarkaði og hef ég öll mín fullorðinsár fengið dýrindis flíkur og hluti á slíkum stöðum.


Í lífinu er ég mjög fylgin því að sitja með alls konar. Að sitja með fólki og að sitja með því sem kemur upp hjá mér í tilfinningalífinu. Þá get ég tekið tilfinningarnar sem upp koma hjá mér og rýnt í þær eins og kristalskúlu. Því oft er það sem upp kemur, ekki akkúrat það sem það virðist við fyrstu sýn. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að skella sér í allskonar dulargervi. Ég get til dæmis fundið allt að einhverju og fundist ég vera í fullum rétti til þess vegna þess að (og hér má bæta við hvaða réttlætingu sem er í rauninni). Síðan lít ég í kristalskúluna og sé að þarna hef ég kannski upplifað höfnun og undir kraumar reiði yfir því að vera ekki metin að verðleikum, eða kannski sorg yfir því að finnast ég utanveltu og ekki með í hópnum. Það geta verið allskonar beyglaðar tilfinningar, sem eiga svo flestar uppruna sinn í einhverju sem stendur langt út fyrir raunveruleikann sem líf mitt er í dag. Eitthvað gamalt. Það geta reyndar verið alls konar atburðir og viðfangsefni sem eru að eiga sér stað í núinu og vekja upp raunveruleg viðbrögð akkúrat þá stundina, en hellings hellingur af tilfinningaviðbrögðum mínum á sér dýpri rætur. Þar sem ég er einstaklega forvitin um tilfinningar í ljósi sögu hvers og eins, þá læt ég það yfirleitt ekki vera að velta við nokkrum steinum í viðleitni minni til að skilja mig betur.


Alveg eins og ég fékk leið á mér í gær. Fæ ég stundum leið á sífelldri naflaskoðun. Þá veit ég fátt betra en að halda mér upptekinni. Það er aldrei eins hreint hjá mér og þegar ég er markvisst að vinna mig frá því að skoða allt djúpt ofan í kjölinn. Ég hef oft glímt við kvíða á lífsleiðinni. Núorðið er ég ekki mikið í kvíða dagsdaglega, það er hreinlega frekar sjaldgæft, ef sagan fram til þessa er höfð til viðmiðunar. Núna á ég það til ef ég upplifi kvíða að henda mér í einhver verkefni. Stundum finnst mér það hreinlega árangursríkara en að kryfja kvíðann. Kvíðinn getur verið svo snúinn. Stundum þegar maður ætlar eitthvað að virða hann fyrir sér stækkar hann og verður eins og langur skuggi haustsólarinnar. Síðan tek ég upp fýsibelginn og blæs og blæs og blæs þar til hann verður orðinn hvílíkt ógnarskrímsli að ég á ekki annan kost vænstan en að leggjast og gefa mig honum fyllilega á vald. Vissuð þið að djúpstæður kvíði á heima í gamla heilanum og gamli heilinn hlustar ekki á rök? Þetta var gríðarleg uppgötvun fyrir mig. Ég komst líka að því að núvitundaræfingar og hugleiðsla geta verið til þess fallnar að auka kvíða í staðinn fyrir að draga úr honum? Þannig að nú þegar kvíðinn fer í þann ham að vilja lengja skuggana sína, þá segi ég bara: Vertu sæll og blessaður. Ég er farin að þrífa/baka/mála/sortera/labba.



Ég tek skýrt fram að það þýðir ekki að ég takist ekki á við rót vandans og skoði hvað hefur komið mér í kvíðaham, en ég veit bara að rétt á meðan ég er þar, er það ekki meðalið við ástandi mínu. Ég ætla ekki að ákveða fyrir neinn annan en sjálfa mig hvernig best er að tækla málin, en núna er þetta svona fyrir mig.


Ég hef tala mjög oft um sjálfsvinnu sem þrif. Fyrir mér er hún ekkert annað og það sem er leiðinlegt við það eins með þrif almennt, er að þau vara ekki að eilífu. Það vill reyndar svo skemmtilega til að ef maður ræðst endrum og sinnum í stórhreingerningar, þá þarf bara að halda þeim við inn á milli.

Töfrar dagsins eru þrif bæði að utan og innan. Að vita hvenær þeirra er þörf, hvenær er best að ráðast til verka, hvenær og hvar þarf stórhreingerningu og hvar þarf bara að dusta.

 
 
 

Opmerkingen


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page