top of page
Search

Af griðastöðum...

Það er eitt og annað sem blásið hefur mér anda í brjóst í dag. Ég hrífst oft af hinum og þessum sköpunarverkum og ekki síður hrífst ég af fólki sem talar til hjartans í mér. Það getur verið gert með ólíkum hætti, en alltaf felur það í sér að ég upplifi það sem satt og heiðarlegt. Ég held að ég verði að taka undir með Bréne Brown sem talar mikið fyrir því að fólk þurfi að leyfa sér þann munað að leggja vörnum sínum (e. be vulnerable). Með þeim hætti eykur fólk hamingju sína samkvæmt rannsóknum hennar og losar sig undan ánauð eitraðrar skammar.


Í gær horfði ég loks á Leitina að upprunanum þar sem hún Linda Rut, nágrannakona mín, leitar að föður sínum og finnur. Þegar ég settist niður ákvað ég að ætla ekki að gráta. Ég er ekki mikið fyrir það að gráta, en held að það hefði verið mun skárri kostur fyrir mig að segja við mig: Ef það snertir þig, máttu alveg gráta. Nema. Tvisvar í seinni þættinum hreinlega spýttust tárin úr augunum á mér, alveg án þess einu sinni að fara í gegnum nokkra ritskoðun. Bara einn, tveir og tár.


Eitt af því sem hreyfði við mér í dag var viðtal á mbl.is við sigurvegara Skrekks. Þessir hugrökku kærleiksdrengir geta nú brætt hvaða gamla ísklump sem er, síðan er boðskapur þeirra líka svo fallegur. Annað sem snerti mig djúpt var viðtal sem ég fann við Patti Smith á síðu hins danska Louisiana safns. Patti er mér mikill innblástur. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikið í pönkinu þessa dagana, en hlusta stundum á ögn lágstemmdari lög með henni. En ég er mjög hrifin af bókunum hennar og finnst hún svo gegnheil, mannvinur með fallega sýn á lífið. Viðtalsbúturinn sem ég horfði á heitir Advice to the young og þar talar Patti meðal annars um ráð sem hún fékk frá rithöfundinum William S. Burroughs um að heiðra sitt eigið nafn og ekki ata það auri. Hún talar líka um að vilja í raun að fólk njóti verkanna hennar. Best að sjá hvort ég geti ekki skellt því hér inn.



Í samtölum sem ég hef átt í dag hefur hugmyndin um griðastaði tvisvar borið á góma. Fátt er mér eins mikilvægt og að heimilið mitt sé griðastaður og það sé svo fyrir alla sem hér búa (fjölskyldustærðin hefur verið nokkuð rokkandi í gegnum tíðina, þó kjarninn telji fjórar mannverur). Sem móðir veit ég ekki hvort ég taki nokkuð jafn alvarlega og að innan veggja heimilisins séu börnin mín óhult, að drengirnir eigi stað þar sem þeir geti verið frjálsir að vera eins og þeir eru og þeir þurfi ekki að fela hlutina eða fara í einhver hlutverk. Þeir þurfa ekki að óttast ofbeldi af hálfu annarra fjölskyldumeðlima og þeir þurfa ekki að verða vitni að neinu alvarlega misjöfnu, þeir þurfa ekki að horfa upp á okkur foreldrana sósuð eða hlusta á ofbeldisfull rifrildi. Ég er ekki að tala um að hér sé allt fóðrað með bómull og allir alltaf æðislega glaðir og stundum hvessir alveg innandyra á Hlíðarveginum, en ég geri það sem í mínu valdi stendur til að vera ekki manneskjan sem kynnir þá fyrir ofbeldi með háttalagi mínu. Þeir sem búa við ofbeldi inn á heimili sínu hafa í fá skjól að venda.


Heimilið mitt í bernsku var ekki sá griðastaður sem það hefði átt að vera. Þegar ég var unglingur og orðin gjaldgeng í samtöl hinna fullorðnu varð litla eldhúsið á Ennisbrautinni griðastaður. Svo mikið svo að ég hverf enn þangað í leit að svörum við ráðgátum lífsins. Um leið og einhver steig fæti inn fyrir dyr eldhússins var hann leystur úr álögum hinnar fullkomnu ásýndar, en á sama tíma breyttist viðkomandi í handhafa valdsins yfir eigin lífi sem hann mátti túlka eins og honum fannst þægilegast. Ég hafði djúpstæða unun af því að sitja í eldhúsinu og ræða allt það sem máli skipti. Mamma var ekkert að dæma fólk fyrir brestina. Í eldhúsinu voru sagðar sögur af draumum og dularfullum fyrirboðum, þar sátu stundum spákonur og lögðu okkur lífsreglurnar í gegnum það sem lesa mátti út úr spilum eða kaffiblettuðum bollum. Þarna kom fólk í leit að sálusorgurum, þarna kom fólk í leit að félagsskap, þarna kom fólk sem þurfti að heyra að streðið hefði eitthvað æðra gildi. Í eldhúsinu voru stundum samkomur svartra sauða, en hjörtu þeirra eru alveg jafn rauð og annarra – bara viðkvæmari. Allir máttu vera hetjan í eigin lífi í eldhúsinu hjá mömmu, ekki var hún að fara að dæma þá. Hver vill ekki aðgang að slíku eldhúsi og finna griðin í manngæskunni sem býr innan þeirra veggja? Ég hef þá kenningu að hafi lífið beygt mann hressilega í duftið á einhverjum tímapunkti, þá svæfi það dómhörkuna í viðkomandi. Ég hef svo sem séð dæmi um hið gangstæða, en svona móta lexíurnar okkur ekki öll í sama mótið.




Fólk getur verið griðastaðir – og dýr. Nerína, tíkin okkar sem skírð var eftir franskri gleðikonu, að sögn pabba, var griðastaður. Hún var líka sálusorgari. Hundar geta hlustað af athygli á allan fjandann – og aldrei kjaftað frá. Hvað fólkið varðar upplifi það sem griðastaði þegar mér finnst ég ekki þurfa að eiga það á hættu að vera dæmd af því. Ég vil ekki bara eitthvað já-elskan-hagaðu-þér-bara-eins-og-fáviti fólk, sem aldrei speglar þegar ég misstíg mig, en ég vil vita að þrátt fyrir feilspor sé fólkið mitt bandamenn mínir. Ég og vinir mínir gerum oft grín að brestum mínum og þeirra og það þarf sannarlega ekki að fara um þá silkihönskum, en ég ætla bara að skrifa það upphátt, sálina í mér þarf að meðhöndla með silkihönskum og gildir þá einu hvort það er ég sjálf eða aðrir sem eru að handleika hana.


Töfrar þessa þriðjudags eru griðastaðir. Megum við öll eiga kost á því að halla okkur upp að fólki og stöðum sem veita grið í stormum og hríðarbyljum lífsins.

 
 
 

Comments


Töfradagbókin

Að hugsa upphátt​
  • White Facebook Icon
  • White Twitter Icon
  • White Pinterest Icon
  • White Instagram Icon

Thanks for submitting!

bottom of page