Af bróðerni...
- Annska Ólafsdóttir
- Nov 7, 2019
- 5 min read
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Þó Kári hafi upprunalega vísað þarna til bróður sem stuðningsmanns, get ég fullyrt að líf mitt hefði verið fátæklegra og oft erfiðara ef ekki nyti bræðra minna, Sölva Fannars og Trausta Ægis við. Og þennan töfradag ber svo við að Sölvi fagnar 49 árum af jarðvist. Ég fagna innilega að stóri bróðir minn hafi komið í heiminn þennan dag og hugsa hvað lífið hefði verið fátæklegra án hans. Við systkinin erum öll fædd með 5 ára millibili, Sölvi 1970, ég 1975 og Trausti 1980. Þó við séum í dag sem fullorðið fólk tiltölulega nálægt hverju öðru í aldri, þá voru þessi fimm ár ansi mikið á uppvaxtarárunum og ég tala nú ekki um árin 10 sem eru á milli Sölva og Trausta. Það má eiginlega segja að þeir hafi ekki alist upp í sama heimi.
Sölvi var rosa hrifinn af litlu systur og var einstaklega ljúfur og góður við hana. Þegar það svo bar við að stúlkan eignaðist lítinn bróður fimm árum seinna var ekki sama hamingja uppi á teningnum. Þannig að Sölvi var s.s. voða góður við mig, en ég launaði Trausta ekki þann greiða – í það minnsta ekki fyrstu æviárin þó ég hafi tekið mig á í þeim efnum síðar á lífsleiðinni.

Við Sölvi vorum afskaplega ólík sem börn. Ég algjör skvetta en hann mun innhverfari og varði miklum tíma í tölvur og tónlist. Ég held að Sölvi hafi fundið það upp að það mætti leika sér í tölvum – enda gekk hann oft undir nafninu Tölvi (pun intended). Atari, Sinclair spectrum og ég veit ekki hvað og hvað. Síðan blastaði hann fyrstu tölvutónlistinni með slíkri ákefð að í hvert sinn sem ég heyri Blue Monday með New Order hendist ég áratugi og kílómetra aftur í tímann og verð stelpuskott í herberginu mínu á Túnbrekkunni, þar sem ég mátti gjöra svo vel að hlusta hvort sem mér líkaði það betur eða verr, því Sölvi var í næsta herbergi með lagið ítrekað í botni.
Ég held satt að segja að við Sölvi hefðum ekki getað verið ólíkari þó við hefðum lagt okkur öll fram. Til dæmis vildum við alls ekki sama matinn. Sölvi vildi blóðugar steikur, þó það hefði ekki einu sinni verið búið að finna þær upp á níunda áratug síðustu aldar. Stundum leyfði mamma okkur að velja hvað ætti að vera í matinn og þá ríkti styrjaldarástand á Túnbrekkunni...því auðvitað vildum við ekki sama matinn. Ég valdi iðulega eitthvað sem hét ostaréttur á okkar heimili, uppskrift frá ömmu að osta-sofflé nokkru, sem trónir enn ofarlega á vinsældarlista þess sem mér þykir gott í lífinu. Sölva klígjaði við þessu og fannst það ógeðslegt. Ég mátti hinsvegar ekki sjá blóð, því það sannaði fyrir mér að það sem var á matarborðinu kæmi úr dýraríkinu, eitthvað sem ég reyndi með öllu að afneita við matarneyslu mína. Það er enn svo að Sölvi veit ekkert betra en blóðugar steikur og það er enn svo að ég hef lítinn áhuga á kjötáti.Talandi um mat og okkur Sölva og uppvöxtinn – og mig langar hér að bæta inn fölskum minningum. Mamma tók alltaf slátur og mjög oft var slátur í matinn á laugardögum. Í mínu minni er það svo að ég vildi bara blóðmör (stappaða með kartöflumús) og Sölvi bara lifrarpylsu. Einhverntíman vorum við að ræða þetta systkinin og kom þá upp úr krafsinu að bæði mundum við eftir að hafa sitthvora tegundina sem okkar uppáhald, en við mundum þó bæði eftir því að hafa valið blóðmörinn.

Sölvi var alltaf með brjálæðislegan áhuga á flugi og líka á seinni heimsstyrjöldinni. Stríð hafa aldrei nokkurntíman vakið áhuga minn nema fyrir það eitt að reyna að skilja hvernig í ósköpunum við förum út í þau til að byrja með. Þessi sagnfræðiáhugi hefur ekki yfirgefið Sölva og alls ekki hefur flugáhuginn gert það. Á meðan ég er farin að gera allt til að koma mér undan því að stíga upp í slík farartæki hefur hann gert það að atvinnu sinni að stýra þeim. Sú vegferð var honum ekki auðveld. Það verður að segjast eins og það er að við fengum ekki þann stuðning sem til þarf til að láta drauma okkar rætast í heimanmund. Sölvi fékk ekki þá hvatningu og örvun sem til þurfti í föðurhúsum. Það var ekki fyrr en hann kynntist sinni góðu konu, henni Sólveigu, að lukkuhjólið tók í raun að snúast honum í vil. Með því að lifa á pakkasúpu í sjö ár þræluðu þau honum í sameiningu í gegnum atvinnuflugmannsnám (ef þið tókuð ekki eftir því gaf ég mér fullt skáldaleyfi í þessari setningu). Síðan þá hefur hann verið í háloftunum. Nú síðast flaug hann á vit ævintýranna á Spáni þar sem hann nú býr með fjölskyldunni. Sölvi og Sólveig eru sannarlega gott tvíeyki og samstillt með eindæmum. Hugi Hrafn spurði mig einu sinni hvernig stæði á því að þau bæru sama nafn – slík er samstillingin – Sólvi og Sólvi.

Ég var fjórtán og Sölvi nítján þegar að pabbi dó og mamma tapaði áttunum sínum. Þegar aðstæður krefjast þess af mannfólkinu stillir það oftar en ekki saman strengi sína. Þegar þarna var komið sögu í lífi okkar verður að segjast að Sölvi var mér talsvert framandi sem mannvera og ég vissi tæplega meira um hann en það að við byggjum undir sama þaki og hefðum komið úr sama móðurlífi. Það varð snögg og innileg breyting á því og næstu árin urðum við miklir vinir. Mikið er ég þakklát því að við höfum þarna fundið svo djúpa og einlæga vináttu hvort í öðru. Við gátum spjallað um alla heima og geima, við urðum bandamenn sem stóðu upp hvor fyrir öðrum og við vorum líka óhrædd við að segja hvoru öðru til syndanna ef svo bar undir.
Töfrar dagsins eru því bræður og bræðralag. Megum við öll vera bræðralags aðnjótandi í þessu lífi. Það skiptir ekki öllu að það sé myndað með blóðtengslum og við þurfum ekki einu sinni að finna veruleg líkindi með þeim sem við eigum í bræðralagi við. En að eiga manneskju sem við elskum og virðum og sem elskar og virðir okkur þrátt fyrir líkindi eða ólíkindi er dýrmætt með eindæmum.
Til hamingju með nýja árið bróðir sæll. Megi það vera hlaðið ást og ævintýrum. Takk fyrir að vera sá sem þú ert og takk fyrir allar gjafirnar sem þú hefur gefið mér í gegnum árin með nærveru þinni, húmor, kærleika og öryggisupplýsingum um flugferðir (smá líka með tuði þínu og öllu hinu). Ég ætlaði að vera svo hugdjörf að henda mér upp í flugvél til Spánar og fagna afmælinu með þér, en í þetta sinn verður þessi kveðja að duga.

Comentarios